Skoðun

Ban­vænt að­gerðar­leysi

Tómas A. Tómasson skrifar

Ímyndaðu þér að vera með banvænan sjúkdóm. Þú leitar þér hjálpar en kemst svo að því að það eru hundruðir manns á undan þér í biðröð og þú færð ekki hjálp. Þetta er raunveruleikinn fyrir yfir 700 manns sem bíða eftir að komast inn á Vog og fyrir aðra 100 sem bíða eftir að komast í meðferð á Krýsuvík.

Á sama tíma að við sjáum lífshættulega langa biðlista, neyðist SÁÁ til að tilkynna að eftirmeðferðarstöðinni Vík verði lokað í sumar, sem hefði auðveldlega verið hægt að komast hjá ef fjárframlög stjórnvalda væru fullnægjandi til að tryggja samfellu í rekstrinum.

Heilbrigðisráðherra sagði á dögunum að hann væri tilbúinn í samtalið og að það þyrfti ekki mikið fjármagn til að halda Vík opinni yfir sumartímann. Raunveruleikinn er sá að þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um aukið fjármagn til að bregðast við vaxandi vanda, hafa ríkisstjórnarflokkarnir sagt nei, nei og aftur nei. Jafnvel þegar Flokkur fólksins lagði til 520 milljóna króna aukaframlag til SÁÁ um síðustu áramót til að bregðast við grafalvarlegum og vaxandi vanda, greiddu allir þingmenn Framsóknar, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna atkvæði gegn fjárveitingunni.

Með því að hunsa fíkniefnavandann ár eftir ár setur ríkisstjórnin líf fólks í hættu. Fíknivandinn er banvænn sjúkdómur og fólk á ekki að þurfa að bíða eftir meðferð, frekar en þeir sem glíma við hjartasjúkdóma eða krabbamein. Ef ekkert er að gert munu hundruðir einstaklinga dvelja áfram fastir í vítahring fíknisjúkdómsins, með engan aðgang að lífsnauðsynlegri meðferð.

Flokkur fólksins hefur lagt fram raunhæfar lausnir til að takast á við þennan vanda. Með því að auka varanlega fjárframlög til SÁÁ um 520 milljónir á ársgrundvelli má bæta upp þann halla sem hefur myndast í rekstri samtakanna vegna þess að samningar við Sjúkratryggingar eru löngu orðnir úreltir. Þannig getum við tryggt að fleiri einstaklingar fái tímanlega og viðeigandi meðferð. Þetta fjármagn myndi gera SÁÁ kleift að auka afkastagetu sína, stytta biðlista og veita eftirfylgni til að koma í veg fyrir bakslag.

Með þessum fjármunum gætu hundruðir einstaklinga fengið tækifæri til að sigrast á fíkn sinni og byggja upp betra líf. Þeir gætu snúið aftur til fjölskyldna sinna og orðið virkir þátttakendur í samfélaginu á ný. Þetta er sú framtíð sem Flokkur fólksins berst fyrir.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×