Skoðun

Hjarta um­hverfis­mála

Margrét Júlía Rafnsdóttir skrifar

Um aldamótin síðustu hóf ég meistaranám í umhverfisfæði við Háskóla Íslands.

Umhverfisverndin var þá hálfgert jaðarsport sem ekki öllum þótti fínt að stunda. Fólk setti upp spurnarsvip er ég sagði því hvað ég væri að læra og sum hváðu og spurðu hvort ég væri að læra umferðarfræði. Á þessum tíma var við ramman reip að draga er reynt var að halda mikilvægi náttúruverndar, verndar gegn loftslagsbreytingum og sjálfbærni á lofti, enda lítil þekking meðal almennings á málefninu og lítill vilji meðal stjórnvalda.

Það var þó í einu horni stjórnmálanna sem menn þekktu og skyldu mikilvægi umhverfismálanna. Það var í Vinstri hreyfingunni grænu framboði. Hreyfingin var stofnuð um aldamótin síðustu og var algjörlega á undan sinni samtíð hvað málefnið varðar, eða kannski aðrir á eftir sinni samtíð. Í VG sló hjarta umhverfismálanna.

Það er ánægjulegt að sjá að nú er umræða um umhverfismál orðin hluti af allri umræðu og samofin flestum áætlunum og verkum. Það er ekki síst að þakka elju þeirra sem hafa haldið málefninu á lofti allan þennan tíma. Katrín Jakopsdóttir hefur þar verið í broddi fylkingar. Hún var Menntamálaráðherrra þegar sjálfbærni var sett í aðalnámskrá sem einn grunnþáttur menntunar og sá þáttur sem samofinn skyldi öllu skólastarfi. Hún hefur verið forsætisráðherra á erfiðum tímum, en komið á fót mörgum verkefnum, meðal annars verkefninu sjálfbært Ísland.

Engri treysti ég betur til að vera sameiningarafl íslensku þjóðarinnar í öllu því sem þjóðin á eftir að takast á við en Katrínu. Það mun hún gera á sinn einstaka, jákvæða og látlausa hátt. Engri treysti ég betur til að standa vörð um sjálfbært Ísland. Katrín hefur þekkinguna, reynsluna, viljann og getuna. Að auki hefur hún einstakt vald á íslenskri tungu og fjölmörgum öðrum tungumálum. Kjósum Katrínu sem forseta Íslands þann 1. júní. Þjóðin verður ekki svikin af því vali.

Höfundur er umhverfisfræðingur og kennari.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×