Enski boltinn

Um­boðs­maður Olise dæmdur í sex mánaða bann

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Olise hefur heillað knattspyrnuaðdáendur á Englandi og þykir líklegur til stórra félagaskipta í sumar.
Olise hefur heillað knattspyrnuaðdáendur á Englandi og þykir líklegur til stórra félagaskipta í sumar. Clive Rose/Getty Images

Glen Tweneboah, umboðsmaður Michael Olise, var dæmdur í sex mánaða bann af enska knattspyrnusambandinu eftir rannsóknir á samningi sem hann gekk frá við Reading árið 2019. 

Bannið tekur gildi þann 4. október 2024 og Tweneboah mun geta gengið frá mögulegum félagaskiptum og samningum Olise í sumar. 

Málið snýst um þriggja ára framlengingu á samningi Olise við Reading árið 2019. Þar skráði Tweneboah 10 prósent af framtíðarsölufé leikmannsins á sjálfan sig, sem er umboðsmönnum bannað, aðeins leikmenn og félög mega hirða hlut af sölufé. 

Það er vert taka fram að þessu ákvæði var ekki framfylgt og Tweneboah tók ekki hlut af 9,3 milljón punda sölu Olise til Crystal Palace árið 2021. 

Rannsókn knattspyrnusambandsins leiddi engu að síður í ljós að Tweneboah gerðist brotlegur á reglum. Hann fékk 15.000 punda sekt auk bannsins. 

Þá var Reading einnig sektað um 200.000 pund og Nigel Howe, fyrrum framkvæmdastjóri félagsins, var sektaður um 15.000 pund. Tveir aðrir yfirmenn innan félagsins voru ávíttir fyrir starfshætti sína. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×