Skoðun

Katrín kann sig

Aðalheiður Björk Olgudóttir skrifar

- Það er eitthvað um að vera í Hörpu, einhverjir stórlaxar að koma, eitthvað Evrópudæmi, Sinfó á að spila, ég stjórna.

Svo komst vinur minn að orði síðasta vor þar sem við sátum yfir kaffibolla og spjölluðum. Hann var nýorðinn þrítugur, franskur að uppruna en hefur þrátt fyrir ungan aldur dvalið víða um heim við nám og störf og talar mörg tungumál. Síðastliðið ár hafði hann starfað sem gestastjórnandi hjá Sinfó og ég verið svo heppin að kynnast honum og verða vinur hans.

Hann var auðvitað að tala um leiðtogafund Evrópuráðsins sem haldinn var í Hörpu með glæsibrag fyrir akkúrat ári síðan. Um kvöldið horfði ég á útsendinguna á RÚV þegar hver þjóðarleiðtoginn á fætur öðrum mætti, heilsaði forsætisráðherra með virktum og hélt svo inn í húsið til fundarins. Ég var stolt af Katrínu Jakobsdóttur. Hún var allt í senn virðuleg, glaðleg, hnarreist og vingjarnleg við gestina.

Næsta dag kalla ég til vinar míns hvernig hafi gengið í Hörpu.

- Þetta var meiriháttar! segir hann glaður.

- Hittirðu Macron? spyr ég.

- Macron já já, ég talaði aðeins við hann og Katrínu Jakobsdóttur, hún er stórkostleg! Ég fór beint heim og gúgglaði hana og hún er bara upp á fjöllum og hlaupandi út um allt og er eins og hver önnur stelpa og svo er hún forsætisráðherra Íslands! Hann átti ekki orð.

Katrín hafði, þrátt fyrir miklar annir, gengið til hans og tekið í höndina á honum og þakkað fyrir tónlistina og það var eins og við manninn mælt að annað mektarfólk fór að dæmi hennar og öll tóku í hönd stjórnandans unga sem stóð steini lostinn! Hann hafði í mesta lagi gert sér vonir um að geta kastað kveðju á sinn franska forseta en hafði ekki við að heilsa þjóðhöfðingjum. Ég var enn og aftur stolt af Katrínu Jakobsdóttur.

Og nú ári síðar er ég stolt stuðningskona Katrínar Jakobsdóttur, hún fær mitt atkvæði þann fyrsta júní.

Höfundur er ÍSAT kennari.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×