Golf

Gríðar­mikill fögnuður þegar Scheffler mætti á völlinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Scottie Scheffler mætti aftur á völlinn við mikinn fögnuð.
Scottie Scheffler mætti aftur á völlinn við mikinn fögnuð. Vísir/Getty

Scottie Scheffler, fremsti kylfingur heims, hefur verið sleppt úr haldi lögreglu eftir handtöku í morgun. Hann er mættur á Valhalla-völlinn og mun spila annan hringinn á PGA-meistaramótinu.

Uppfært klukkan 16:09 með yfirlýsingu Scheffler.

Scheffler var handtekinn rétt fyrir klukkan hálf átta að morgni á staðartíma, um hálf tólf að íslenskum tíma. Á vefsíðu lögregluembættisins í Louisville segir að honum hafi verið sleppt rúmri klukkustund síðar.

Scheffler var á leið á Valhalla-völlinn að undirbúa sig fyrir annan hringinn þegar hann var handtekinn í morgunsárið. Banaslys hafði átt sér stað við völlinn fyrr um morguninn, skammt frá vellinum, sem olli töluverðri umferðarþröng. Hann var handtekinn fyrir að virða lokanir lögreglu að vettugi.

Mynd af handtökuskýrslu Schefflers hefur verið lekið.Mynd/X

Fjórar ákærur hafa verið gefnar út á hendur Scheffler vegna málsins, líkt og greint var frá á Vísi.

Scheffler átti að hefja leik rétt fyrir klukkan eitt en rástíma hans var seinkað og hefur hann til klukkan þrjú að hefja leik.

Marty Smith, fréttamaður hjá ESPN, bað Scheffler um viðbrögð við uppákomu morgunsins og svaraði Scheffler með orðunum: „Ég elska þig Marty.“

Gríðarmikil fagnaðarlæti brutust út þegar Scheffler mætti á bása á Valhalla-vellinum til að hita upp. Rickie Fowler, meðleikandi hans á mótinu spurði hvort hann væri góður og svaraði Scheffler: „Allt í góðu.“

Skömmu seinna birtist yfirlýsing frá Scheffler á samfélagsmiðlum þar sem að hann sagði handtöku sína byggða á misskilningi. Hann hafi aldrei ætlað sér að fara á svig við tilmæli lögreglu og ekki vitað til hvers ætlast hafi verið af honum á vettvangi. Hann ber vonir til þess að málið verði látið niður falla. Að ekkert verði af ákærunum á hendur honum. 

Þá sendi hann samúðarkveðjur til fjölskyldu þess sem lést í banaslysinu nærri Valhalla vellinum í morgun. 

Schef­fler mætti til leiks á PGA meistaramótið í gær í góðu formi. Nýlega stóð hann uppi sem sigur­vegari Masters og hefur alls staðið uppi sem sigur­vegari á fjórum mótum undan­farna tvo mánuði.

PGA-meistaramótið er í beinni á Stöð 2 Sport 4 alla helgina en bein útsending frá öðrum hring mótsins hefst klukkan 18:00 á Stöð 2 Sport 4 í kvöld.


Tengdar fréttir

Efsti kylfingur á heims­lista á yfir höfði sér fjórar á­kærur

Kylfingurinn Scotti­e Schef­fler, efsti maður á heims­lista, á yfir höfði sér fjórar á­kærur í kjöl­far þess að hann var hand­tekinn á vett­vangi bana­slyss í morgun eftir að hafa virt lokanir lög­reglunnar að vettugi. Bana­slysið átti sér stað rétt hjá Val­halla vellinum í Ken­tuk­cy þar sem að PGA meistara­mótið í golfi er nú haldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×